Sigríður Mogensen frá Samtökum iðnaðarins og Ingólfur Ævarsson frá tölvuleikjafyrirtækinu 1939 Games ætla að fjalla um það sem þau kalla „stærsta efnahagsmál samtímans,“ það er að segja vöxtinn í hugverka- og nýsköpunargeiranum.
Gylfi Zoëga hagfræðingur ætlar að fjalla um efnahagsumhverfið, vextir fara hækkandi á ný og Seðlabankastjórinn virkaði bara kátur með það - hvert liggur leiðin á þessum stærstu innspýtingartímum opinbers fjár í efnahagslífið á síðari tímum? Skapar hún land tækifæranna eða eitthvað allt annað?
Tinna Hallgrímsdóttir er formaður Ungra umhverfissinna. Þeir fullyrða að íslenskir stjórnmálaflokkar séu - margir hverjir og flestir reyndar - lélegir í loftslagsmálum og þurfi að endurskoða stefnu sína. Tinna rekur gagnrýni sína á flokkana og ástæður þess að þeir fá lága einkunn hjá þessu unga fólki.