Maðurinn hljóp á brott og hafði samband við lögreglu.
Á milli fimm í gær og fimm í morgun eru alls 113 mál skráð hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Flest þeirra sneru að hávaða og ölvun.
Tveir menn voru handteknir á sjötta tímanum í gær fyrir brot á lögreglusamþykkt. Þeir voru ölvaðir og grunaðir um hnupl úr verslun. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslum vegna ástands þeirra og rannsóknar lögreglu.
Á svipuðum tíma var tilkynnt um umferðarslys í Hafnarfirði en þar hafði bíl verið ekið á umferðarljós. Í dagbók lögreglu segir að ökumaðurinn hafi verið kona frá Færeyjum og sagðist hún óvön því að aka um stór gatnamót með margar akreinar eins og á Íslandi. Engan sakaði í óhappinu.
Á tíunda tímanum var ökumaður stöðvaður í Árbænum. Hann er grunaður um hafa valdið umferðarslysi, akstur undir áhrifum fíkniefna eða lyfja og akstur án réttinda en hann hafði áður verið sviptur þeim.
Nokkrir aðrir ökumenn voru stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna og minnst tveir voru án ökuréttinda.