Fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafa ekki verið í neinu samræmi við fjórðungs fjölgun íbúa á svæðinu undanfarin fimm ár að sögn forstjóra. Skipulag húsnæðis væri löngu spurngið og úrelt miðað við starfsemina. Þannig þurfi til dæmis níu starfsemnn bráðamótku að kúldrast saman í litlu herbergi þar sem lyfjabúr spítalans væri einnig til staðar og mötuneyti starfsmanna væri nánast inni á bráðadeildinni.
Engin starfsemi var á þriðju hæð nýrri byggingar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í um áratug. Þar voru skurðstofur sem voru ekkert notaðar fyrir samfélagið en leigðar út annað slagið til sérfræðinga úti í bæ til að gera einstakar aðgerðir. Annars stóð þetta húsnæði meira og minna autt.

Markús Ingólfur Eiríksson sem tók fyrir forstjórastöðunni á HSS fyrir rúmum tveimur árum segir að nú verði þessi hæð að fullu nýtt. Enda fráleitt að hafa hana ekki í notkun á sama tíma og starfseminni væri húsnæðislega þröngt skorinn stakkurinn.
„Það er verið að innrétta hér legudeild með nítján rýmum. Auk þeirra verða átta dagdeildarrými á hæðinni sem veita okkur möguleika á að auka þjónustu við lyfjagjafir og slíkt.“
Þannig að leguplássum fjölgar mjög á spítalanum þegar þetta verður komið í gagnið?
„Já, þau fara úr tuttugu og þremur í fjörtíu og tvö. Þá erum við að tala um varanlega aukningu,“ segir forstjóri HSS. Með samþykkt Alþingis á nýrri heilbrigðisstefnu fyrir tveimur árum hafi hlutverki HSS verið breytt.
„Okkar hlutverk er fyrst og fremst að veita fyrsta og annars stigs þjónustu eins og það heitir á tæknimáli. Eða grunnheilbrigðisþjónustu heima í héraði,“ segir Markús Ingólfur.
Spítalinn verði einnig hluti af heilbrigðiskerfinu í landinu og ætlað að taka á móti sjúklingum frá Landspítala undir álagi eins og gert var í sumar þegar HSS hafi tekist með elju starfsmanna á sex dögum að setja upp tíu ný legurými.

Sigurgeir Trausti Höskuldsson sérfræðilæknir í heimilislækningum áHSS fagnar því aðauk fjölgunar legurýma verði aðstöðu bráðadeildarinnar gjörbylt.
„Það er löngu kominn tími til. Bráðamóttakan hefur verið sprungin í fjölda ára. Nú erum viðað fá nýja bráðamóttöku sem verður þrefalt stærri. Hún mun umbreyta starfseminni hjá okkur,“ segir Sigurgeir Trausti.
Í dag geti deildin tekið við fjórum sem þurfi rúm en margir séu jafna á bið. Eftir stækkunina geti deildin tekið á móti allt að tólf sem þurfi á rúmi aðhalda.