„Þetta er bara allt í lagi,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í samtali við Vísi.
„Við erum að bæta við okkur og erum einn þriggja flokka sem eru að bæta við sig. En engu að síður, eins og staðan er núna þá hefðum við viljað sjá meira.“
Spurð hvort hún bindi vonir við að ótalin utankjörfundaatkvæði, sem eru sögulega mörg í ár og verða talin síðast geti mögulega fallið flokknum í vil segir hún allar hugmyndir um það aðeins vera spekúlasjónir. Það sé að teiknast upp ansi skýr mynd af niðurstöðum kosninganna.
Hefur trú á að fylgið verði meira
Samkvæmt nýjustu tölum er Viðreisn með 7,7 prósenta fylgi og fimm þingmenn. Þeir bæta þannig við sig einum manni frá síðustu kosningum.
„Ég hef samt trú á því að við förum eitthvað upp en hversu mikið það verður er erfitt að segja,“ segir Þorgerður Katrín.
Hún segir mikla stemmningu í kosningapartýi Viðreisnar. „En um leið, eins og ég segi, þá hefðum ég viljað sjá okkur stækka meira en þetta.“