Miklar líkur eru á að nýr leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins verði einnig nýr forsætisráðherra, en samhliða því að láta af formennsku í flokknum mun Löfven hætta sem forsætisráðherra.
Sænska þingið mun þó þurfa að greiða sérstaklega atkvæði um nýjan forsætisráðherra þar sem meirihluti þarf að umbera viðkomandi, það er ekki greiða atkvæði gegn þeim sem þingforseti tilnefnir sem forsætisráðherra.
Fari svo að Andersson taki við sem forsætisráðherra af Löfven yrði hún fyrsta konan til að gegna embættinu í Svíþjóð. Þingkosningar fara svo fram í landinu haustið 2022.
Andersson segir það mikinn heiður að hafa verið tilnefnd af undirbúningsnefndinni. Á fréttamannafundi flokksins í dag sagði Andersson meðal annars að hún ætli sér að velta hverjum steini þannig að hægt sé að hafa betur í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi í landinu.
Öll 26 flokksfélög Jafnaðarmannaflokksins höfðu þegar lagt til að Andersson yrði næsti formaður.
Hin 54 ára Andersson hefur gegnt embætti fjármálaráðherra Svíþjóðar síðustu sjö ár.