Hér er hún að vísa til vegarins um Vatnsnes og Vesturhóp skammt frá Hvammstanga. Vegurinn hefur sjaldan eða aldrei verið eins slæmur og í haust en um er að ræða 80 kílómetra, sem er meira og minna allur út í holum.
„Það eru 17 börn, sem þurfa að fara í tveimur skólabílum þessa leið alla virka daga í skóla á Hvammstanga og svo keyrum við íbúar í sveitinni börnin okkar þennan veg líka alla daga í leikskóla á Hvammstanga, auk tómstundastarfs með eldri börnin. Ástandið er skelfilegt og vesalings börnin að þurfa að sætta sig við þetta ástand og geta ekkert gert en við fullorðna fólkið erum að reyna að berjast fyrir úrbótum fyrir þau. Við viljum fá að heyra að það sé einhver sem er að hlusta og einhver sem ætlar að svara spurningum okkar um úrbætur á veginum og koma með einhverjar lausnir, þetta gengur ekki lengur,“ bætir Guðrún Ósk við. Hún segir að vegurinn sé á ábyrgð ríkisins.
