Reglugerðin kveður meðal annars á um 500 manna fjöldamörk á samkomum og takmarkanir á afgreiðslutíma skemmtistaða. Hún kemur í stað fyrri reglugerðar sem gilti til miðnættis.
Í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis lagði hann til að reglugerði yrði framlengd óbreytt í að minnsta kosti einn mánuð. Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur þó fram að heilbrigðisráðherra hafi þótt rétt að framlengja þær takmarkanir sem voru í gildi um tvær vikur, til 20. október næstkomandi.
„Í ljósi þróunar faraldursins erlendis og reynslunnar hérlendis af fullri afléttingu takmarkana þá tel ég varhugavert að slaka meira á þeim sóttvarnaaðgerðum innanlands en þeim sem nú eru í gildi“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra er þróun faraldursins rakin frá því að öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum hér á landi var aflétt 26. júní síðastliðinn og slakað á sýnatökum hjá farþegum á landamærunum.
Bendir Þórólfur á að þessar tilslakanir hafi verið gerðar í ljósi þess að smit innanlands voru fátíð og um 70 prósent þjóðarinnar fullbólusett. Tveimur til þremur vikum eftir afléttingu sóttvarnaaðgerða hafi smitum innanlands tekið að fjölga, fjölgun hafi orðið á innlögnum á Landspítala og alvarleg veikindi aukist. Í þessari bylgju hafi smit og alvarleg veikindi verið algengari en áður hjá óbólusettum börnum og tvö alvarlega veik börn lagst inn á sjúkrahús.
Fréttin hefur verið uppfærð.