Valdimar Jóhannsson, leikstjóri myndarinnar, er nú staddur á Spáni þar sem Dýrið var frumsýnt á kvikmyndahátíð í gær en hann er þar staddur ásamt Hrönn Kristinsdóttur, öðrum framleiðanda myndarinnar.
Þau segja viðtökurnar hafa verið frábærar og fagna því að Dýrið hafi verið sjöunda vinsælasta myndin í Bandaríkjunum eftir helgina en þau voru þar í keppni við sjálfan James Bond.
Aðspurð um metið sem þau hafa nú slegið með velgengni myndarinnar í Bandaríkjunum segja Hrönn og Valdimar að þau væru gjarnan til í að slá svipað met hér á Íslandi, þar sem aðsókn hér hefur verið heldur dræm.
„Það væri æðislegt ef að fólk myndi drífa sig í bíó, þetta er eiginlega mynd sem að maður ætti að sjá í bíó,“ segir Valdimar.
Annars staðar í heiminum hafa viðtökurnar þó verið frábærar að þeirra sögn, þar á meðal á Spáni og í Mexíkó þar sem myndin var sýnd nýverið, en þau eru á leið til Lundúna á næstu dögum fyrir London Film Festival.
Þau segja ótrúlegt að lítil íslensk kvikmynd hafi náð þessum árangri og það hafi verið skrýtið að sjá hvernig fólk tengdi á mismunandi hátt við myndina.
„Viðtökurnar hafa bara verið alveg stórkostlega góðar og það er bara gaman að sjá á hverjum stað hvað fólk bregst misjafnt við, en heilt yfir þá hafa viðtökurnar verið frábærar,” segir Hrönn Kristinsdóttir, annar framleiðandi myndarinnar.
„Við erum bara ótrúlega þakklát fyrir viðbrögðin og þetta gleður okkur alveg ótrúlega mikið,” segir Valdimar Jóhannsson, leikstjóri kvikmyndarinnar Dýrið.