Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum taka þátt í Safnahelgina þar sem þau bjóða upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa. Ókeypis er inn á söfnin og flesta viðburði helgarinnar.
Bergný Jóna Sævarsdóttir, sviðsstjóri hjá Suðurnesjabæ veit allt um helgina.
„Safnahelgi hefur verið haldin á Suðurnesjum í nokkur ár oftast um miðjan febrúar en sökum Covid var henni frestað í fyrra en við vildum ekki aflýsa henni aftur og færðum hana því núna yfir í október. Þetta er samstarfsverkefni, sem er búið að vera í nokkur ár og hefur tekist rosalega vel. Langflest söfn á Suðurnesjum bjóða gestum núna frítt inn á söfnin hjá sér,“ segir Bergný.

Bergný segir mikla safnamenningu á Suðurnesjum.
„Já og það bætist bara alltaf við. Við erum náttúrulega með Rokksafnið í Reykjanesbæ og það er bæði Byggðasafn í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ og svo eru náttúrulega öll bókasöfnin, ég er örugglega að gleyma einhverju, listasöfnin, Saltfisksetrið í Garðinum, Kvikan í Grindavík, þannig að það er rosalega margt í gangi og mörg söfn og í rauninni er þetta bara verkefni, sem hefur heppnast rosalega vel.“
Hægt er að skoða alla dagskrá Safnahelgarinnar á heimasíðu verkefnisins