Urður sagðist við afhendingu viðurkenningarinnar bæði hissa og hrærð. Hún hefði átt ákaflega dýrmætt samband við samtökin í langan tíma. Hún hefði kynnst ADHD í Bandaríkjunum og það hefði verið ást við fyrstu sýn.
„Það er meginverkefni þegar barn greinist með ADHD að koma í veg fyrir þróun annarra fylgikvilla. Það er alveg nóg að fæðast með ADHD og glíma við það. En að þurfa að takast á við kvíðaraskanir og þunglyndi til viðbótar er algjör óþarfi. Við getum komið í veg fyrir það,“ sagði Urður.
Rannsóknir Urðar hafa einkum beinst að taugaþroskaröskunum og hegðunarvanda barna. Doktorsverkefni hennar fjallaði um túlkun foreldra barna með ADHD á hegðunarvanda og áhrif hennar á meðferðarsamþykki.
Urður Njarðvík er fædd þann 11. september 1970 í Gautaborg í Svíþjóð. Foreldrar hennar eru Njörður P. Njarðvík, prófessor emeritus og Bera Þórisdóttir fyrrverandi menntaskólakennari. Eiginmaður Urðar er Ívar Guðjónsson, viðskiptafræðingur og eiga þau tvö börn, Heiði og Baldur.
Urður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1989 og BA námi í Sálfræði frá Háskóla Íslands 1993. Hún lauk mastersgráðu árið 1997 í Klínískri barnasálfræði frá Louisiana State University og doktorsprófi frá sama skóla árið 2000.
Eftir doktorsnám starfaði Urður á Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) og sem stundakennari við Háskóla Íslands. Urður var ráðin lektor við Sálfræðideild árið 2008 og dósent 2013.
Rannsóknir Urðar hafa einkum beinst að taugaþroskaröskunum og hegðunarvanda barna, bæði þróun einkenna eftir aldri og tíðni fylgikvilla eins og kvíða og þunglyndis. Urður hefur jafnframt unnið að þróun meðferðarúrræða fyrir börn með hegðunarvanda þar sem áhersla er lögð á þjálfun í hugrænum þáttum.