Sólveig Anna tilkynnti um afsögn sína á Facebook á sunnudagskvöldið. Sakaði hún starfsfólk á skrifstofu Eflingar um að hrekja sig úr embætti vegna þess að það dró ekki til baka gagnrýni á stjórnarhætti hennar frá því í sumar.
Afsögnin kom Drífu á óvart
Sólveig gegnir embætti annars varaforseta ASÍ og afsögn hennar úr því embætti er ekki komin inn á borð ASÍ.
„Við erum ekki búin að fá afsögn hennar sem varaforseti ASÍ en ég á frekar von á henni í dag,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í samtali við fréttastofu.
Drífa segist jafnframt ekki hafa átt von á afsögn Sólveigar Önnu.
„Ég get sagt það að þetta kom mér á óvart.“
Hafði þér borist til eyrna að þarna væri einhver vandi á ferðum?
„Nei, ekki af þessum skala nei en vissulega gengur ýmislegt á í verkalýðshreyfingunni, alltaf. Það er ekki skoðanalaust fólk sem vinnur hérna eða velst til starfa. Það er með miklar hugsjónir þannig að það hefur tilhneigingu til að hvessa í hreyfingunni,“ segir Drífa.
Sólveig Anna og Viðar þurfi að svara fyrir sig sjálf
Aðspurð að því hvort að hún hafi rætt við Sólveigu Önnu og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Eflingar, sem hefur sagst ætla að fylgja Sólveigu út, segist Drífa hafa rætt við fjölda manns án þess þó að vilja fara nánar út í hvað hafi falist í viðrænum. Sagði hún Sólveigu og Viðar þurfa að svara sjálf fyrir sig.

Tekið skal fram að fréttastofa hefur ítrekað reynt að ná tali af Sólveigu Önnu og Viðari vegna málsins, án árangurs hingað til.
Reiknar með að varaformaðurinn taki við hjá Eflingu
Aðspurð um stöðu mála hjá Eflingu segist Drífa reikna með að varaformaður félagsins, Agnieszka Ewa Ziólkowska, taki við sem formaður.
„Það er starfandi stjórn í Eflingu, þegar formaður segir af sér þá tekur varaformaður við. Þannig eru reglurnar þannig að það er ekki eins og það sé óstarfhæf stjórn. Alþýðusamband Íslands stígur ekkert inn í nema það sé fullreynt með aðrar leiðir,“ segir Drífa.
Segist hún hafa rætt við Agniezku.
„Ég geri ráð fyrir því að varaformaðurinn ætli að taka við. Ég hef ekki heyrt að hún ætli að segja af sér,“ segir Drífa.
Hlutverk ASÍ á þessari stundi gagnvart Eflingu sé að aðstoða félagið við að sinna skyldum sínum gagnvart félagsmönnum félagsins.
„Það sem skiptir öllu máli núna er að það sé hægt að þjónusta félagsmenn Eflingar áfram. Að það fólk treysti sér til að leita til síns félags. Það er það sem öllu máli skiptir núna.“