Þetta kemur fram í yfirlýsingu trúnaðarmanna sem fréttastofu barst í kvöld og Ragnheiður Valgarðsdóttir og Hjördís Ólafsdóttir skrifa undir.
Téð ályktun er miðpunkturinn í þeirri orrahríð sem ríkt hefur innan Eflingar síðustu daga og varð til þess að formaðurinn Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér og framkvæmdastjórinn Viðar Þorsteinsson sagði upp störfum.
Þar segir jafnframt að trúnaðarmenn hafi aldrei ætlað að reka málið í fjölmiðlum, en fáheyrt sé að stjórnendur stéttarfélaga „ráðist á trúnaðarmenn innan eigin stéttarfélags með þeim hætti sem hefur átt sér stað“.
„Þessar árásir í fjölmiðlum eru bæði særandi og vanvirðing við störf trúnaðarmanna.“
Atburðir síðustu daga hafi knúið trúnaðarmenn til að „varpa ljósi á staðreyndir þessa máls“. Það sé þó von trúnaðarmanna „að framkoma fyrrverandi stjórnanda verði ekki til að draga úr trúverðugleika verkalýðsbaráttunnar og varpa skugga á þá sigra sem þar hafa unnist“.
Yfirlýsingin í heild sinni er hér að neðan:
Við trúnaðarmenn starfsfólks á skrifstofu Eflingar sjáum okkur tilneydd til að svara þeim ásökunum sem á okkur hafa dunið síðustu daga. Ályktun sú sem við sendum á yfirmenn Eflingar í byrjun sumars var til að upplýsa þá um vanlíðan starfsmanna á skrifstofu og upplifarnir þeirra. Þar eru engar ásakanir um kjarasamningsbrot heldur beinar lýsingar á upplifunum starfsfólks.
Eitt af hlutverkum trúnaðarmanna er að koma á framfæri umkvörtunum starfsmanna til yfirmanna. Það gerðum við í þeim tilgangi að bæta þá vanlíðan sem fjölmargir starfsmenn Eflingar upplifðu.Trúnaðarmaður er rödd starfsmanna. Við teljum að allan tímann hafi við verið að sinna störfum okkar sem trúnaðarmenn að heilindum.
Eftir að við sendum frá okkur þessa ályktun í sumar höfum við trúnaðarmenn verið algjörlega hunsaðar af fyrrum formanni og framkvæmdarstjóra Eflingar. Það er fáheyrt að stjórnendur ráðist á trúnaðarmenn innan eigins stéttarfélags með þeim hætti sem hér hefur átt sér stað. Þessar árásir í fjölmiðlum eru bæði særandi og vanvirðing við störf trúnaðarmanna.
Það er okkar von að framkoma fyrrverandi stjórnanda verði ekki til að draga úr trúverðugleika verkalýðsbaráttunnar og varpa skugga á þá sigra sem þar hafa unnist. Það var aldrei ætlun okkar að rekja þetta mál í fjölmiðlum en atburðir síðustu daga gera það að verkum að við sjáum okkur knúin að varpa ljósi á staðreyndir þessa máls.