Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að sóttvarnalæknir bendi á að faraldurinn sé í töluverðum vexti og þeim fari fjölgandi sem veikist alvarlega. Faraldurinn sé farinn að hafa íþyngjandi áhrif á starfsemi Landspítala.
Um tvö prósent þeirra sem greinast með Covid-19 þurfa að leggjast inn á sjúkrahús.
Allir farþegar sem koma til landsins, hvort sem þeir eru íslenskir eða ekki, þurfa að framvísa neikvæðu PCR eða hraðgreiningaprófi sem má ekki vera eldra en 72 klukkustundir við byrðingu erlendis.
Á því eru þó undanþágur. Íslenskir ríkisborgarar sem hafa tengsl við Ísland þurfa til að mynda að undirgangast annað sömu prófa innan tveggja daga eftir komuna til landsins. Frekari upplýsingar um aðgerðirnar á landamærunum og skilyrði má finna hér í reglunum sjálfum.
Í minnisblaði sínu frá fyrsta nóvember, sagði sóttvarnalæknir að frá því að núgildandi reglugerð tók gildi hafi smitum sem greinast á landamærum fjölgað nokkuð. Þau séu að meðaltali færri en tíu á dag og greinast nánast eingöngu full bólusettir einstaklingar með Covid-19.