Fjallað hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um hin svokölluðu gulu herbergi í nokkrum skólum á höfuðborgarsvæðinu eftir að foreldrar gerðu athugasemdir við að börn þeirra væru lokuð þar inni misstu þau stjórn á skapi sínu.
Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla-og frístundasviðs borgarinnar segir að í einhverjum skólum í Reykjavík séu til staðar rými til að skapa börnum aðstæður þar sem þau geta náð áttum og gleði sinni þó það sé ekki algengt.
„Við mælum alls ekki með að slík úrræði séu notuð gert nema í mjög sérstökum tilvikum. Og þá aðeins ef barn velur sjálft að fara í slíkt rými til að ná stjórn á skapi sínu,“ segir Helgi.
Borgin sé að yfirfara reglur um slík rými.
Við erum að setja af stað starfshóp sem á að fara yfir allar leiðbeiningar okkar til starfsfólks í leikskólum, grunnskólum og tómstundastarfi. Við munum kalla eftir liðsinni frá háskólasamfélaginu í þessari vinnu þannig að við séum alltaf að nýta bestu mögulegu leiðir í starfi með börnunum okkar,“ segir Helgi.
Helgi segir að nú sé til skoðunar eitt mál þar sem kvartað sé yfir notkun á gulu herbergi. Slík tilvik séu ávallt skoðuð og krafist úrbóta sé þörf á því.
„Seinustu tvö ár hefur skóla- og frístundasviði borist ein kvörtun vegna notkunar á „gulu herbergi“ í starfi grunnskóla í Reykjavík. Ekki kom fram í kvörtun hvort herbergið hafi verið notað í því tilviki sem um ræðir, og ef svo er, hvort barnið hafi verið eitt í herberginu eða það lokað á meðan barnið var þar inni. Málsatvik eru í skoðun hjá okkur.“ segir Helgi.