Þetta sýna gögn sem New York Times hefur undir höndum en þau gefa mynd af síðasta mánuðinum sem Epstein var á lífi.
Samkvæmt gögnunum sagðist Epstein í samtali við sálfræðing í fangelsinu ekki hafa nokkurn áhuga á að taka eigið líf; hann væri „heigull“ og þyldi ekki sársauka. Samtalið átti sér stað nokkrum vikum eftir að hann gerði sjálfsvígstilraun og tveimur vikum áður en hann lést.

Það kvöld sagðist Epstein langa til að tala við móður sína í síma en hún var í raun löngu látin. Þess í stað hringdi hann í kærustu sína. Um nóttina var hann látinn vera einn í klefa, þrátt fyrir fyrirmæli um að hann ætti að hafa klefafélaga.
Samkvæmt gögnunum varði Epstein löngum stundum í fundarherbergjum með lögmönnum sínum, kvartaði undan appelsínugulum fangabúningnum, svefnerfiðleikum og klósettinu í klefanum sínum.
Þá ræddi hann við starfsmenn og fanga um áhuga sinn á stærðfræði og eðlisfræði og veitti þeim fjárfestingaráð. Honum varð einnig tíðrætt um frægt fólk sem hann umgekkst áður.
New York Times segir gögnin ekki renna stoðum undir þær samsæriskenningar að Epstein hafi verið ráðinn bani en hins vegar sé ljóst að mörg mistök hafi verið gerð. Á innskráningarblaði var Epstein til að mynda lýst sem svörtum og þá var gefið til kynna að hann hefði ekki verið dæmdur fyrir kynferðisbrot, þrátt fyrir að hann væri sannarlega skráður kynferðisbrotamaður í Flórída.
Ekki var fylgst með símtölum hans eins og reglur fangelsisins kveða á um.
Í skýrslu fangelsissálfræðinga segir að Epstein hafi byggt sjálfsmynd sína á auð sínum og völdum og tengslum við aðra þekkta einstaklinga. Stöðumissir, skortur á samskiptum við aðra og líkurnar á langri fangelsvist hafi líklega átt þátt í því að svo fór sem fór.
Ítarlega umfjöllun um málið má finna á vef New York Times.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á þjónustu Pieta-samtakanna. Síminn hjá Pieta-samtökunum er opinn allan sólarhringinn, númerið er 552-2218.