EM í hópfimleikum hófst í Guimaeres í Portúgal í dag með keppni í unglingaflokki. Stúlknaliðið voru fyrstu fulltrúar Íslands til að keppa á EM.
Íslenska liðið varð í 3. sæti í undanúrslitunum á eftir því sænska og breska. Heildareinkunn Íslendinga var 50.275.
Íslensku stelpurnar byrjuðu á stökki og fengu 14.800 í einkunn fyrir æfingar sínar þar.

Því næst var komið að gólfæfingum og þar sýndi íslenska liðið sínar bestu hliðar. Fyrir æfingarnar fékk Ísland 21.025 í einkunn sem var hæsta einkunn sem nokkurt stúlknalið fékk fyrir æfingar sínar í dag.
Í stökkinu fékk íslenska liðið 14.400 í einkunn. Heildareinkunnin var því 50.275. Svíar fengu hæstu einkunnina, 53.650, og þar á eftir komu Bretar með 50.625 í heildareinkunn.

Auk Íslands, Svíþjóðar og Bretlands komust Finnland, Tékkland og Lúxemborg í úrslit. Slóvenía, Eistland og Þýskaland sátu eftir með sárt ennið.
Úrslitin hjá stúlknaliðunum fara fram á föstudaginn og hefst keppni klukkan 16:15.