Ójafnt kynjahlutfall í allavega tveimur fastanefndum þingsins er í algeri andstöðu við nýtt ákvæði í þingskapalögum sem var samþykkt í vor og kveður á um að kynjahlutfall skuli vera eins jafnt og kostur er á.
Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sitja átta konur og einn karl en í utanríkismálanefnd sitja sjö karlar og tvær konur.
Forseti Alþingis, benti þingflokksformönnum á þetta vandamál fyrir helgi og segir það þeirra að leysa vandann.

Ábyrgðin á herðum stjórnarflokkanna
Þingflokksformanni Samfylkingarinnar, þykir ábyrgðin þó vera stjórnarflokkanna.
„Þetta er nú bara eitthvað sem að stjórnarflokkarnir verða að vinna í hjá sér. Þetta verkefni bara lendir á þeirra borði,“ segir Helga Vala Helgadóttir.
„Ábyrgðin er ríkari þar. Þau tóku tvo þriðju hluta nefndanna sem er í fyrsta skipti síðan 1986 sem það gerist. Að valdinu sé beitt með þeim hætti.“

Stjórnarandstaðan á reyndar fjóra af níu nefndarmönnum í báðum þeim nefndum þar sem kynjahlutfallið er ójafnast.
Ætlar ekki að víkjast undan ábyrgð
Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að formenn þingflokka muni ræða málið á næstu dögum og reyna að finna lausn á vandanum.
Hann ætlast þó til að stjórnarandstaðan taki þátt í verkefninu.
„Það er nú oft þannig að það er ætlast til þess að aðrir leysi hlutina og ef svo er þá er ég ekkert að víkjast undan því en þetta er auðvitað sameiginlegt verkefni þingsins í heild,“ segir Óli Björn Kárason.
Og takist ekki að laga kynjahlutfallið svo allir verði sáttir verði svo að vera, þrátt fyrir að það stangist á við þingskapalög.
„Við auðvitað verðum að skipa til verka eins og við teljum að nefndirnar séu best skipaðar. Ef að það þýðir í okkar huga að það séu fleiri konur en karlar þá verður svo að vera.“