Á dögunum spurðu Makamál lesendur Vísis út í viðhorf þeirra til kaupmála við giftingu og var könnunin kynjaskipt.
Tæplega tvö þúsund manns tóku þátt í könnuninni og ef marka má niðurstöðurnar* eru langflestir á þeirri skoðun að gera kaupmála við giftingu.
Það sem gæti þótt athyglisvert er að mjög lítill munur reyndist á svörum kynjanna en hér áður fyrr þótti það kannski eðlilegra að karlmenn sæktust eftir því að gera kaupmála þar sem eignastaða þeirra var oft á tíðum meiri en kvenna.
Tal um kaupmála gæti þótt órómantískt og óþarft en í nútíma samfélagi þar sem fólk á jafnvel börn úr fyrri samböndum er oft nauðsynlegt að hugsa vel út í þessi mál áður en gengið er upp að altarinu.
Nútíma sambandsform og breytt hugarfar
Þegar fólk gengur í hjónaband verða allar eignir sameiginlegar hjúskapareignir, nema annað sé sérstaklega tilgreint í kaupmála. Kaupmáli er því ekki einungis gerður þegar mikill munur er á eignastöðu fólks heldur líka til að greina séreignir eins og erfðagripi, gjafir eða annað.
Með breyttum tímum og nútíma sambandsformum mætti því segja að viðhorf til kaupmála hafi að einhverju leyti breyst á undanförnum árum en aðeins 10% karla og kvenna segjast aldrei myndu gera kaupmála. Staða kvenna á atvinnumarkaði í dag er allt önnur en hér áður fyrr þegar meiri munur var á eignastöðu kynjanna.
Niðurstöður*
Konur:
- Myndi alltaf gera kaupmála - 44%
- Myndi líklegast gera kaupmála - 24%
- Hef ekki hugsað út í það - 19%
- Maki minn myndi vilja það - 3%
- Myndi aldrei gera kaupmála - 10%
Karlar:
- Myndi alltaf gera kaupmála - 46%
- Myndi líklegast gera kaupmála - 25%
- Hef ekki hugsað út í það - 17%
- Maki minn myndi vilja það - 2%
- Myndi aldrei gera kaupmála - 10%
*Tekið skal fram að niðurstöður byggjast eingöngu á svörum lesenda Vísis og því ekki hægt að alhæfa um niðurstöður. Allar kannanir Makamála eru ætlaðar til skemmtunar og til að vekja umræðu og athygli á ýmsum málefnum.