Siðanefnd fundaði í dag og aflar hún nú nauðsynlegra gagna til að geta veitt álit sitt í málinu. Þetta staðfesti Skúli Skúlason, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is í dag.
Sagði hann í samtali við mbl.is að allur gangur væri á því hve langan tíma tæki fyrir nefndina að afla gagna í slíkum málum og þá hafi næsti fundur siðanefndar enn ekki verið boðaður. Nefndin muni nú leggjast undir feld og meta málið.
Málið varðar útgáfu bókarinnar Eyjan hans Ingólfs, sem Ásgeir gaf út á dögunum. Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og fræðimaður, hefur sakað Ásgeir um ritstuld og telur ljóst að Ásgeir hafi í veigamiklum atriðum stuðst við bók sína Leitina að svarta víkingnum.