Dagur var meðal annars spurður að því hvort að hann óttaðist ekki að missa Viðreisn í faðm Sjálfstæðisflokksins, sem mældist enn stærsti flokkurinn í borginni. Hann gæti þá setið eftir sem óbreyttur borgarfulltrúi næstu ár.
Borgarstjóri sagðist ekki beint óttast það en vissulega veltu menn fyrir sér öllum mögulegum útkomum. Menn væru hins vegar ekki í stjórnmálum vegna fyrirsjáanleika, heldur vegna ástríðu.
Spurður að því hvað hann ætlaði að gera á nýju kjörtímabili sagði Dagur mörg stór mál í gangi, til að mynda skipulags- og samgöngumál. Fólk vissi nokkurn veginn fyrir hvað hann stæði. Hann ætlaðist ekki til þess að allir væru sammála honum en vonaðist að flestir væru sammála um að vilja byggja Reykjavík upp sem borg lífsgæða og lýðheilsu; um það snérust kosningarnar.