Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er staddur í Berlín þar sem hann hitti í dag utanríkisráðherra Þýskalands, Frakklands og Bretlands. Fyrr í dag ræddi hann við Volodímír Selenskí, forseta Úkraínu, í Kænugarði.
Hann mun halda ræðu í dag og svo í kjölfarið ferðast til Genf þar sem hann mun funda með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á morgun.
AP fréttaveitan segir að í ræðu sinni muni Blinken tala um mikilvægi þess að bandamenn Úkraínu standi sameinaðir gegn yfirgangi Rússa og brotum þeirra á alþjóðlegum reglum og venjum.
Sagðir undirbúa aðra innrás
Rússar hafa komið minnst hundrað þúsund hermönnum, skriðdrekum og öðrum búnaði við landamæri Úkraínu. Úkraína er nánast umkringd eftir að rússneskir hermenn voru sendir til Hvíta-Rússlands en Úkraínumenn óttast að Rússar ætli sér að gera aðra innrás í landið.
Sjá einnig: Biden telur Pútín hyggja á innrás og segir hann munu gjalda það dýru verði
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagðist í gærkvöldi eiga von á því að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ætlaði sér að gera einhvers konar innrás í Úkraínu á næstunni. Hann sagði einnig að Rússar myndu gjalda þess dýr verði.
Yfirvöld í Rússlandi segjast ekki ætla sér að gera innrás í Úkraínu. Í dag sökuðu ráðamenn þar Vesturveldin svokölluðu um að ætla að „ögra“ Rússum og dulbúa raunverulegar ætlanir sínar varðandi Úkraínu með því að ýta undir áhyggjur af mögulegri innrás Rússa.
AP fréttaveitan hefur eftir Maríu Sakaróvu, talskonu utanríkisráðuneytis Rússlands, að yfirlýsingar um yfirvofandi árásir á Úkraínu væru einhvers konar yfirvarp fyrir „þeirra eigin umfangsmiklu ögranir, meðal annars af hernaðarlegu tagi“.
Þá hefur Tass fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, eftir Dmitry Peskov, talsmanni Pútíns, að „ógnanir“ Bandaríkjanna í garð Rússlands gætu leitt til þess að Úkraínumenn reyni að ná aftur tökum á svæði aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins.
Rússar gerðu innrás í Úkraínu árið 2014 og innlimaði Úkraínuskaga. Þá hafa Rússar stutt við bakið á aðskilnaðarsinnum í austurhluta landsins meðal annars með vopnum og hermönnum.
Ráðamenn í Bandaríkjunum sögðust fyrir skömmu hafa komist á snoðir um að Rússar hefðu sent sérstaka sveit hermanna til austurhluta Úkraínu þar sem þeir áttu mögulega að falsa tilefni til inngrips Rússa.
Ríkisstjórn Úkraínu þvertekur fyrir að til standi að reyna að reka aðskilnaðarsinnana á brott.
Vilja meina Úkraínu aðgang að NATO
Þessa miklu spennu á svæðinu má rekja til þess að Rússar sendu áðurnefnda hermenn að landamærum Úkraínu. Samhliða því krafðist ríkisstjórn Pútíns þess að Úkraínu yrði aldrei hleypt inn í Atlantshafsbandalagið og að bandalagið fjarlægði allar hersveitir og vopn úr Austur-Evrópu.
Nánar tiltekið yrðu hermenn fjarlægðir úr þeim löndum sem gengu til liðs við NATO eftir árið 1997. Þar á meðal eru Pólland og Eystrasaltsríkin, sem hafa varað við því að Rússar vilji auka umsvif sín á svæðinu og draga úr fullveldi þeirra.
Pólland, Ungverjaland og Tékkland gengu til liðs við Atlantshafsbandalagið árið 1999. Árið 2004 gerðu Búlgaría, Rúmenía og Slóvakía það einnig auk Eystrasaltsríkjanna Eistlands, Lettlands og Litháen. Í kjölfarið af því gengu Albanía, Króatía, Svartfjallaland og Norður Makedónía einnig í NATO.
Ætla ekki að verða við kröfum Rússa
Forsvarsmenn NATO segja að ekki komi til greina að verða við kröfum Rússa. Sú ákvörðun að ganga til liðs við NATO sé á höndum íbúa hvers ríkis fyrir sig og svo aðildarríkja NATO sem þurfa að samþykkja umsóknir.
Þó Úkraínumenn hafi lýst yfir áhuga á því að ganga til liðs við NATO eru litlar sem engar líkur á því að það geti gerst í náinni framtíð. Meðal annars vegna yfirstandandi hernámi Rússa í Úkraínu og átökunum við aðskilnaðarsinna sem Rússar styðja.
Peskov sagði einnig í dag að þó Úkraínu yrði ekki hleypt inn í varnarsamstarfið á næstu árum væri það engin trygging fyrir því að það gerðist ekki seinna meir.
Þar sem Úkraína er ekki í NATO eru ríki bandalagsins ekki skuldbundin til að koma ríkinu til varnar. Hins vegar hafa ríki eins og Bretland verið að senda vopn til Úkraínumanna á undanförnum dögum. Þá var tilkynnt í dag að Bandaríkjamenn hafa gefið Eystrasaltsríkjunum heimild til að flytja vopn sem Bandaríkin gáfu þeim til Úkraínu.
Spennan hafi sameinað NATO á ný
Hernaðaruppbygging Rússa á landamærum Úkraínu gæti þó verið að hafa öfug áhrif, miðað við það sem Rússar vilja. Spennan er að gefa NATO aukin kraft í kjölfar brottfararinnar frá Afganistan í fyrra.
Þá hefur ástandið leitt til þess að fleiri ríki í Austur-Evrópu vilja styrkja varnir sína og hafa leitað til Vesturveldanna. Til viðbótar við það eru umræður um mögulega aðild að NATO aftur farnar að heyrast í hinum hlutlausu ríkjum Finnlandi og Svíþjóð.
Svíar tilkynntu til að mynda í vikunni að viðbúnaður hefði verið aukinn verulega á Gotlandi.
Reuters vísar til þess að Emmanuel Macron, forseti Frakklands, tilkynnti nýverið að hann væri tilbúinn til að senda hermenn til Rúmeníu. Forseti Rúmeníu tók vel í það boð og segir fréttaveitan að útlit sé fyrir að NATO-ríki muni senda fleiri hermenn til Eystrasaltsríkjanna á næstunni.
Frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 hefur NATO farið í gegnum umfangsmikla nútímavæðingu á herafla og hafa útgjöld til varnarmála aukist víða. Árið 2014 vörðu einungis þrjú aðildarríki NATO minnst tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu til varnarmála.
Í dag eru þau tíu.
„Það er engin spurning. Rússarnir eru að sameina NATO utan um sameiginlegt markmið,“ sagði einn viðmælandi Reuters, sem var háttsettur embættismaður innan bandalagsins á árum áður.