„Þetta hefur ekki að ég viti til, verið gert áður með sýningu hér á landi og reyndar bara í örfá skipti úti í heimi, eftir þvi sem ég kemst næst,“ segir Sigurjón um þennan aðgang sem gefur fólki kost á að skoða sýninguna í 360 gráðu umhverfi í gegnum tölvu við stofuborðið heima hjá sér.
Þessi nýjung hlýtur að eiga vel við á tímum útbreiddra samkomutakmarkana og með stóran hluta þjóðarinnar í sóttkví eða einangrun.
„Í raun opnar þessi tækni nýjar víddir að mörgu leyti. Þannig settum við, ég og sýningarstjóri minn Rollin Hunt, sýninguna upp í þessu stafræna umhverfi áður en ein einasta mynd fór inn í sýningarrýmið sjálft við Hafnartorg. Við vorum með 360 gráðu ljósmyndir af tómum sýningarsölum þar sem við mátuðum ýmsar útfærslu af því hvernig við vildum hengja myndirnar upp. Upphengingin var því nánast klár þegar við fengum plássið afhent,“ segir listamaðurinn glaðbeittur.

Og Sigurjón telur að tæknin muni valda byltingu í starfsemi safna og gallería:
„Í fyrsta geta þau gefið miklu fleiri en áður kost á að njóta þess sem þau hafa upp á að bjóða. Í öðru lagi, sem er í raun enn þá mikilvægara, gerbreytir þetta varðveislu sýninga. Söfn geta núna tryggt geymd þeirra og safnað upp á vefsvæðum sínum fyrri sýningum með þessum stafræna hætti.“
Gestir geta þá farið um sýningasalina og skoðað sýningar sem er löngu búið að taka niður en liggja í mikil menningarsöguleg verðmæti sem annars myndu glatast.
Sýning Sigurjóns við Hafnartorg er opin miðvikudag til sunnudags frá 13 til 18 út janúar.
