Gular og appelsínugular viðvaranir hafa verið í gildi í dag vegna veðurs. Mikið hvassviðri fylgdi veðrinu og á hádegi í dag höfðu björgunarsveitir verið kallaðar út í Hveragerði, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum, Grindavík og Hellu, í öllum tilfellum vegna foks á þakplötum eða klæðningum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Flest útköll voru á höfuðborgarsvæðinu en fram eftir degi sinntu björgunarsveitir þar, og á Suðurnesjum, Vestmannaeyjum og Akranesi útköllum vegna foks.
„Óvenju algeng voru verkefni þar sem þakplötur, klæðningar og þakkantar voru að fjúka. Einnig var tilkynnt um fok á lausamunum, brota glugga, foktjón á byggingasvæðum, grilla að fjúka, já og trampolín, sem má kalla algeng eða hefðbundin verkefni fyrir björgunarsveitir í aðstæðum sem þessum,“ segir í tilkynningunni.

Einnig þurfti björgunarsveitafólk að huga að bátum í höfnum í nokkrum tilfellum, aðalega á Suðurnesjum.

Alls voru 21 björgunarsveit kölluð út í dag og komu 151 sjálfboðaliði að verkefnum dagsins til að leysa 91 verkefni, þar á meðal til að binda niður tvö trampolín.
