Fastlega má því búast við að Seðlabankinn hækki meginvexti sína á vaxtaákvörðunardegi hinn 9. febrúar næst komandi en þeir eru tvö prósent í dag. Þensla á húsnæðismarkaði kyndir enn undir verðbólgunni því án húsnæðisliðar mælist verðbólgan 3,7 prósent síðustu tólf mánuðina.
Drífa Snædal forseti Alþýðusamandsins segir þörf á stefnubreytingu í húsnæðismálum.

„Þetta er verra en við óttuðumst. Við erum búin að vekja athygli stjórnvalda á þessu og gerðum það fyrir áramót. Það er að segja að við værum að sigla inn í dýrtíð og það þyrfti að taka á þessu,“ segir Drífa. Staðan í húsnæðismálum valdi sérstökum áhyggjum.
„Þessi gjaldþrotastefna að húsnæðismarkaðurinn sé byggður upp fyrir fjárfesta en ekki fyrir venjulegt fólk og með húsnæðisöryggi þess að markmiði.“
ASÍ leggi áherslu á að allir sammælast um að byggja upp húsnæðismarkað á félagslegum grunni. Það verði yfirlýst markmið að fólk greiði ekki meira en 25 prósent af launum í húsnæðiskostnað.
„Það er að segja; að breyta algerlega viðhorfi þannig að hinn frjálsi markaður stýri ekki húsnæðismarkaðnum. Heldur þarfir vinnandi fólks og alls almennings,“ segir Drífa.

Þetta verði stóra málið í þeim kjaraviðræðum sem nú væru í undirbúningi vegna almennra kjarasamninga sem renni sitt skeið í haust.
„Ég óttast að það sé ekkert plan í gangi hjá stjórnvöldum um að taka á húsnæðismarkaðnum með mynduglegum hætti. Það þýðir að við þurfum þá að beita þeim mun meiri þrýstingi til að umpóla markmiðum húsnæðismarkaðrins,“ segir forseti ASÍ.
Sveitarfélögin þyrftu líka að bregðast við því flöskuhálsinn í dag væri skortur á lóðum.
„Allar spár um húsnæðisþörfina eru að hækka þessa dagana. Þannig að það er eins gott að fara að spýta í lófana. Þær lóðir sem eru tilbúnar til bygginga ná engan veginn að dekka þetta,“ segir Drífa Snædal.