Kosningar til formanns og helmings stjórnar Eflingar hefjast í fyrramálið og standa yfir í viku. Formannsframbjóðendur þriggja lista sem í boði eru mættu í Pallborðið í dag og tókust á um ástandið innan félagsins sem leiddi til þess að Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér formennsku í félaginu.

„Þar sem ráðist var að mér og mannorði mínu. Þar með getu minni til að leiða þessa mikilvægu baráttu, með ósönnum ásökunum meðal annars um grafalvarleg kjarasamninsbrot og svo framvegis,“ segir Sólveig Anna.
Hún hafi ákveðið að bjóða sig fram aftur vegna fjölda áskorana þótt það gæti kostað átök.
Uppstillingarnefnd býður hins vegar fram Ólöfu Helgu Adolfsdóttur starfandi varaformann á A-lista sem var áður í stuðningsliði Sólveigar Önnu. Hún segir stöðuna á skrifstofunni mun betri nú en í nóvember.
„Það var náttúrlega mikið áfall þegar Sólveig og Viðar bara fóru. Löbbuðu út. Allri skuldinni einhvern veginn skellt á starfsfólk. Þegar staðan er náttúrlega þannig að þau höfðu ár til að bregðast við kvörtunum og gerðu það ekki og stilltu þá starfsfólkinu upp. Sögðu því að leysa vandamálið í dag annars væri allt því að kennna, að verkalýðshreyfingin væri ónýt. Svolítið ósanngjarnt," sagði Ólöf Helga.

Í þættinum kannaðist Sólveig Anna ekki við fjölda kvartana sem henni áttu að hafa borist vegna framkomu Viðars Þorsteinssonar þáverandi framkvæmdastjóra félagsins og greint er frá á Vísi í dag. Nema í eitt skipti og þá nafnlaust eftir krókaleiðum.
„Nú er greinilega verið að reyna að halda því fram að til mín hafi verið leitað og ég hafi þarna brugðist skyldum mínum.“
Leitaði fólk einhvern tíma til þín Sólveig, kom inn á skrifstofuna til þín og sagði; ég vil endilega fá að tala við þig. Mér líður illa út af samskiptum mínum við Viðar?
„Ekki í eitt einasta skipti. Ekki í eitt einasta skipti gerðist það. Eins og ég segi, mér voru sýnd þessi gögn. Ég tók þetta vissulega mjög alvarlega,“ sagði Sólveig Anna.
„Það er ekki skrýtið að fólk skrifi ekki undir. Vegna þess að það var búið að tala um aftökulista og annað. Svo kemur þessi skýrsla og sagt hvernig þetta fólk kom fram. Ég er ekki hissa á að þetta fólk hafi ekki þorað að koma fram undir nafni,“ sagði Guðmundur Baldursson stjórnarmaður í Eflingu undanfarin ár og formannsframbjóðandi á B-lista.
„Má það kallast krókaleiðir ef starfsfólk sendir til mannauðsstjóra skilaðboð og þau svo borin undir formann af mannauðsstjóra sem vissi hvaða einstaklingar voru á bakvið,“ spurði Ólöf Helga.
„Ég er bara að lýsa því Ólöf Helga hvernig atburðarásin var fyrir mér,“ sagði Sólveig Anna.
Pallborðiðí heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan: