Upp úr hádegi í dag hófu viðbragðsaðilar að pakka saman eftir erfiða viku við Þingvallavatn, þar sem flugvél með fjórum farþegum fórst þarsíðasta fimmtudag. Í gær tókst með hjálp róbota að koma líkum hinna látnu í land og í dag stóð til að gera úrslitatilraun við að sækja brakið líka. Afráðið var að fresta því vegna aðstæðna.
„Það var kominn fjögurra fimm sentímetra þykkur ís yfir flugvélinni í morgun. Við þær kringumstæður er ekkert hægt að senda kafara niður og við höfum ekki aðra möguleika,“ sagði Rúnar Steingrímsson, lögreglufulltrúi á Suðurlandi í samtali við fréttastofu.
„Í rauninni er veðurglugginn bara búinn að lokast á okkur hérna núna. Við náðum því í gær sem skipti okkur mestu máli, sem var að endurheimta manneskjurnar. Núna verðum við bara að bíða eftir betra veðri. Í svona aðgerðum tökum við enga sénsa á að leggja mannslíf í hættu við að endurheimta vélina,“ sagði Jónas Þorvaldsson, yfirmaður séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar.
„Við mátum það bara þannig að hættan af því að valda tjóni á gögnum og munum og jafnvel mengunartjóni við þær aðstæður sem eru í dag væri meiri en hættan á að eitthvað skemmdist við það að bíða eftir betra færi,“ sagði Oddur Árnason yfirlögregluþjónn.
Til að sækja hina látnu var notaður fjarstýrður smákafbátur sem síðast var nýttur þegar fóðurprammi sökk fyrir austan fyrr á árinu og hefur meðal annars verið sendur í eftirlit í El Grillo í Seyðisfirði.
Þegar og ef þiðnar í vatninu á næstu vikum þarf enn að senda brakið til útlanda í rannsókn þar - samkvæmt Oddi Árnasyni eru því að líkindum mánuðir þar til rannsókn lýkur og mynd fæst á það hvað leiddi til flugslyssins 3. febrúar.



