Það er skammt stórra högga á milli í veðrinu þessa dagana. Á morgun er enn ein lægðin á leið yfir landið og má búast við samgöngutruflunum af þeim sökum. Vegagerðin hefur gefið út tilkynningu vegna vega sem búast má við að fari á óvissustig á morgun eða jafnvel lokist.
Hellisheiði og Þrengsli eru á óvissustigi frá klukkan tvö í nótt og þar til sex annað kvöld. Reykjanesbraut og Grindavíkurvegur fara líklegast á óvissustig klukkan ellefu í fyrramálið sem og vegurinn um Hafnarfjall. Á Kjalarnesi er einnig líklegt að færðin verði erfið frá klukkan átta í fyrramálið.
Á Vesturlandi má búast við vandræðum í Bröttubrekku, á Vatnaleið, Fróðárheiði og Holtavörðuheiði og á Vestfjörðum má sömu sögu segja um Kleifaheiði, Klettsháls, Steingrímsfjarðarheiði og Gemlufallsheiði.
Á Suðausturlandi mega vegfarendur síðan búast við truflunum á leiðinni frá Vík til Kirkjubæjarklausturs.
