Elverum tók í gærkvöld á móti Pick Szeged í Meistaradeild Evrópu og tapaði með þriggja marka mun, 27-24.
Eftir leik höfðu Orri, Aron og félagar engu að síður ástæðu til að fagna því þá var orðið ljóst að Elverum hefði unnið norsku deildina.
Skömmu áður en leikur Elverum í Meistaradeildinni hófst var nefnilega hafinn leikur Kolstad og Drammen í norsku deildinni. Drammen var eina liðið sem átti möguleika á að ná Elverum að stigum þar til að liðið tapaði í gær, 31-30.
Elverum hefur unnið alla leiki sína í norsku deildinni og er með 42 stig þegar liðið á enn eftir að spila fimm leiki. Drammen er í 2. sæti með 33 stig og á aðeins fjóra leiki eftir.
Fagna titli á fyrsta tímabilinu
Þetta er sjötti deildarmeistaratitill Elverum. Orri kom til félagsins síðasta sumar frá Haukum en Aron Dagur bættist í hópinn í febrúar frá Guif í Svíþjóð.
Elverum bíður þess nú að vita hvaða lið verður andstæðingur þess í úrslitakeppninni í Noregi en þar leika átta efstu liðin úr deildarkeppninni.
Elverum á auk þess góða möguleika á að komast áfram úr sínum riðli í Meistaradeildinni þrátt fyrir tapið í gær en liðið á þar einn leik eftir gegn Vardar næsta miðvikudag.