Fyrir nokkrum vikum var lífið á Íslandi eðlilegt. Anna fór stundum með dóttur sína í heimsókn til ömmu í næsta húsi og þær fylgdust með heimalandinu Úkraínu úr fjarlægð. Þær höfðu ekki endilega á stefnuskránni að snúa aftur til Úkraínu, en nú er ekkert eins og það var.
„Ég þekki marga brottflutta sem hafa hugsað sig tvisvar um eftir að þetta hófst allt. Sem nú vilja helst fara aftur heim og taka þátt í að byggja landið okkar aftur upp. Þetta var ekki besti staðurinn til að lifa og það voru ýmis vandamál en þegar þetta gerðist breyttist allt. Við urðum svo sterk saman, við sameinuðumst, og nú erum við sterkari en nokkru sinni fyrr,“ segir Anna Dymaretska.
Mæðgurnar hafa hrundið af stað söfnun á meðal Íslendinga fyrir Úkraínumenn. Þær segja að ákveðin tortryggni hafi ríkt gagnvart aðgerðum af sama toga og lofa því gagnsæi - endurskoðandi fer yfir reikningana. Þetta snýst um að koma nauðsynjum til venjulegs fólks.
„Við erum að búa til þennan reikning til þess að hjálpa fólki að komast af í þessari ömurlegu stöðu. En það er samt þannig að vinir mínir úti hafa eina einfalda ósk; friðsælan himin fyrir ofan sig,“ segir Olena Zablocka.

Tengdamóðirin kom heim í sjokki
Olena og Anna hafa verið hér frá 2012 og 2014. Olena vinnur í Costco, eins og eiginmaður Önnu. Móðir hans, Svetlana, komst út úr Úkraínu í byrjun mánaðar þegar stríðið var nýskollið á. Upphaflega vildi hún ekki fara en sonur hennar og fjölskylda drifu hana úr landi.
Svetlana er enn í sjokki, en Anna segir þunga sektarkennd hrjá þá Úkraínumenn sem horfa á stríðið úr öruggri fjarlægð.
„Sérstaklega þeir sem hafa upplifað þennan hrylling stríðsins en komist burt til útlanda strax í byrjun. Þau þjást svo mikið,“ segir Anna.
Maðurinn þinn er hér, hann er frá Úkraínu. Finnst honum að hann ætti að fara til Úkraínu og berjast?
„Já, hann hefur átt í mikilli innri baráttu um það hvort hann ætti að fara eða vera áfram hér.“
Þú vilt ekki að hann fari.
„Nei, auðvitað ekki.“
Hægt er að leggja söfnun mæðgnanna lið með því að leggja inn á reikninginn:
Reikningsnúmer: 0123-15-048671
Kennitala: 161165-2719