Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við fréttastofu að búið sé að ná sambandi við ferðamanninn.
„Þetta er erlendur ferðamaður sem er að ferðast einsamall á hálendinu og virðist vera orðinn kaldur og hrakinn, væntanlega hefur hún lent í veðurofsanum og virkjaði neyðarsendi. Það er búið að kalla út fleiri björgunarsveitir á bæði snjósleðum og snjóbílum til að fara þarna upp á hálendið,“ segir Davíð Már.
Hann bætir við að nokkur snjóþungi og leiðinlegt veður sé á hálendinu um þessar mundir.
Aðspurður segir hann ekki nákvæmlega vitað hvert ástandið á ferðamanninum sé, annað en að hún sé orðin nokkuð köld og hrakin.
„Það eru nokkrir hópar þarna á leiðinni upp á hálendi, það er búið að senda snjóbíla úr Reykjavík og af Suðurlandi þannig að björgunarsveitir eru bara á leiðinni upp á hálendið,“ segir Davíð.