Í fréttum Stöðvar 2 sýndum við myndir frá því þegar við heimsóttum bæinn Gilhaga síðastliðið sumar. Þá rak okkur eiginlega í rogastans að sjá skógarsalinn með birkivöxnum hlíðum og ræktuðum skógi næst bæjarhúsunum.
Í gamalli vélageymslu á hlaðinu eru þau Brynjar Þór Vigfússon og Guðrún Lilja Dam Guðrúnardóttir búin að innrétta ullarvinnslu en þau keyptu jörðin af afa hans fyrir þremur árum.

„Við vissum eiginlega ekkert um ull þegar við byrjuðum. Þetta var verkefni sem var í gangi á vegum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga,“ segir Guðrún.
Ullina fá þau frá bændum í héraðinu. Hún fer síðan í gegnum vélar sem þvo ullina, tæta hana, kemba og spinna. Afurðirnar eru svo seldar beint frá býli en þau innréttuðu sérstaka gestastofu.
„Við erum að reyna að hafa þetta svolítið fjölbreytt. Við erum til dæmis með mjög fínt einband. Við erum með fínt tvinnað band, sem er skemmtilegt í vettlinga, og hefur verið mjög vinsælt.
Við erum með gróft þríband og eitt sem við köllum Hrút. Það er í rauninni bara ærull. Við nefnum það Hrút vegna þess að við tökum ekki togið frá. Þannig að það er svona grófara og ekki fyrir þá allra viðkvæmustu,“ segir Guðrún.

Þau hófu starfsemina sumarið 2020 og þetta varð strax fullt starf hjá Brynjari.
„Guðrún er svona að koma inn í þetta hægt og rólega af því að við höfum bara ekki undan. Þurfum bara í rauninni fleiri hendur,“ segir Brynjar og Guðrún bætir við að tryllt umferð hafi verið síðastliðið sumar og brjálað að gera.
En geta þau lifað á þessu? Liggur framtíðin í þessu?
„Já, ég held að það sé algerlega framtíðin, að vera ullarbóndi,“ svarar Guðrún.
„Já, eins og er, þá gengur þetta vel, og virðist vera að aukast. Þannig að við erum ekki smeyk,“ svarar Brynjar.
Fjallað er um Öxarfjörð í þættinum Um land allt á Stöð 2 en þáttinn má einnig nálgast á Stöð 2+.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: