„Ómerkileg heitin í Drífu Snædal forseta ASÍ ná nýjum botni í þessari grein,“ segir Vilhjálmur meðal annars í herskárri grein sem hann birti nýverið á Vísi. En þar svarar hann svargrein Drífu sem hún skrifaði til að svara ásökunum sem Ragnar Þór hafði sett fram.
Sakar Drífu um að vilja bregða fyrir sig fæti á leið í formannsstól SGS
Vilhjálmur telur einsýnt að í grein Drífu, þar sem hún segist reyndar þeirrar skoðunar að launafólk á Íslandi eigi rétt á því að forysta verkalýðshreyfingarinnar komi sameinuð fram en hún eigi engan kost annan en svara því sem hún segir rangfærslur í máli bæði Vilhjálms og Ragnars Þórs, vilji Drífa koma á sig höggi vegna komandi þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið verður í næstu viku, dagana 23. – 25. mars 2022 í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Þingið hefur æðsta vald í málefnum sambandsins en þar eru línurnar í kjaramálum og starfsemi og þýðingarmikil mál tekin til umfjöllunar. SGS er fjölmennasta landssamband launafólks á Íslandi og stærsta landssambandið innan ASÍ, með samtals um 72.000 félagsmenn. Lykilatriði er fyrir ASÍ hvernig mál skipast þar en Vilhjálmur sækist eftir formennsku.
Sólveig Anna segir sitjandi stjórn Eflingar neita að láta af völdum
Sólveig Anna hefur farið fram á að stjórnarskiptum verði flýtt innan Eflingar, og er ástæða þess meðal annars talin að það sé svo hún geti beitt sér á þingi SGS. Sitjandi stjórn Eflingar hefur hins vegar staðið í vegi fyrir því, að sögn Sólveigar Önnu:
Í stað þess að halda aðalfund í gær og sýna lýðræðislegum vilja félagsfólks Eflingar þá virðingu sem formanni og varaformanni Eflingar ber að sýna, hélt starfandi formaður aukastjórnarfund, að sögn Sólveigar Önnu í pistli á Facebook-síðu sinni. Sitjandi stjórn getur ekki „virt niðurstöður kosninga félagsfólks um það hver eigi að stýra félaginu, hún getur ekki sætt sig við að hún og hennar fólk hafi tapað.“
Sólveig er ósátt við að ASÍ skuli ekki beita sér í málinu þannig að ný stjórn geti tekið við.
Segir tíma Drífu liðinn
Óhætt er að segja að Vilhjálmi sé heitt í hamsi í grein sinni. Hann sakar Drífu um hálfsannleik, ómerkilegheit og boðar að dagar hennar sem forseti ASÍ séu liðnir:
„Málið er að hennar tími sem forseti ASÍ er liðinn enda nýtur hún ekki lengur að mínu mati stuðnings stéttarfélaga sem fara með upp undir 70% af ASÍ. Þetta eru blákaldar staðreyndir og ljóst að á þingi ASÍ í haust mun verða kosinn nýr forseti,“ segir Vilhjálmur.