Forsetafrúin Eliza Reid átti fund með Jill Biden, forsetafrú Bandaríkjanna, í gær en Eliza var stödd í Washington á Taste of Iceland menningarhátíðinni þegar hún fékk boð á fundinn.
Jafnréttismál voru í brennidepli að sögn Elizu en síðar um daginn var hún viðstödd viðburð í Hvíta húsinu í tilefni bandaríska jafnlaunadagsins þar sem Joe Biden Bandaríkjaforseti var sömuleiðis viðstaddur.

Á viðburðinum kallaði hann Elizu upp á svið og þakkaði fyrir framlag hennar í þágu jafnréttis auk þess sem Eliza fékk tækifæri til að tala um jafnréttismál.
„Ég var svolítið hissa en þetta var bara mikill heiður,“ segir Eliza. „Þetta passaði vel við mín stærstu áherslumál og mér fannst þetta bara einstakt tækifæri fyrir Ísland að geta talað um hvernig við erum heimsleiðtogar í þessu, þó það sé langt í land eins og við vitum öll.“
Hún segir Biden hjónin hafa verið mjög vingjarnleg og töluðu þau mikið um Ísland. „Þau hafa ekki heimsótt Ísland áður en ég var að segja að þau væru alltaf velkomin hingað, eða til okkar,“ segir Eliza.
„Við vorum að tala um jafnréttismálin, hversu mikilvægt það er að ala upp börnin okkar og barnabörnin í jafnréttisheimi, hversu mikilvægt það er, og þetta var bara mjög áhugavert og vingjarnlegt spjall,“ segir hún enn fremur.

Þá lýsir hún skemmtilegri uppákomu þegar hún hitti forsetahjónin síðar um daginn. Eliza minnist þess að Jill Biden hafi í ræðu sinni talað um móður sína og hversu mikil fyrirmynd hún var, sem Eliza tengdi við.
„Ég sagði að þetta væri alveg eins og mamma mín, sem er mikil fyrirmynd fyrir mig, og þá sagði Joe Biden við mig; Viltu ekki bara hringja í hana?,“ segir Eliza. „Hann hringdi í hana og hún svaraði eins og hún væri bara að bíða eftir að heyra frá forseta Bandaríkjanna.“
„Mamma sagði að hún væri svo ánægð að sjá að það sé jafnrétti í ríkisstjórninni hans og í ríkisstjórn Kanada og sagði „it‘s about time,“ ef ég man eftir þessu. Hún var bara mjög glöð og hress með að heyra frá honum,“ segir Eliza létt í bragði.
Eliza mun áfram ræða jafnréttismál næstkomandi föstudag þegar hún fundar með nokkrum bandarískum þingkonum.