Kim Kardashian deildi mynd af húðflúrinu á Instagram síðu sinni á dögunum. Þar má sjá að grínistinn hefur látið húðflúra setninguna „My girl is a lawyer“ eða „Stelpan mín er lögfræðingur“ á viðbein sitt.
Þó svo að Kardashian sé ekki ennþá orðin lögfræðingur þá er hún í lögfræðinámi. Hún náði svokölluðu „baby bar“ lögfræðiprófi í desember á síðasta ári í sinni fjórðu tilraun og er hún staðráðin í því að verða lögmaður eins og faðir hennar.

Húðflúraður og brennimerktur
Kardashian og Davidson fóru að sjást saman í október á síðasta ári en opinberuðu þó ekki samband sitt fyrr en nokkrum mánuðum síðar.
Húðflúrið er ekki það fyrsta sem Davidson lætur rita á líkama sinn tileinkað sinni heittelskuðu. Nýlega birti hann mynd af sér þar sem sást glitta í nafn Kim á brjóstkassa hans. Síðar kom þó í ljós að það var ekki húðflúr, heldur hafði hann látið brennimerkja sig henni.
Hér að neðan má hlusta á Brennslute vikunnar í heild sinni. Þar ræðir Birta Líf Ólafsdóttir um húðflúrið, Óskarsverðlaunahátíðina og fleira.