Vorveiðin er komin á fullt og keppast veiðimenn nú við að slíta sjóbirting upp úr ám landsins.
„Þetta er allt að byrja. Ég meina menn byrjuðu núna 1. apríl og það byrjaði bara ágætlega í sjóbirtingi víða. Og tíðarfarið gott,“ segir Þröstur Elliðason, eigandi Veiðiþjónustunnar Strengja.
Síðustu tvö ár hafa ekki verið upp á marga fiska í laxveiðinni - bókstaflega. En Þröstur segir horfurnar betri nú. Það stefnir allt í gott laxveiðiár. Að minnsta kosti virðist þetta vera árið þar sem óhætt er að seigja að Ísland er eftirsóttasti kosturinn fyrir laxveiðimenn.
„Ég held að það sé nokkuð líklegt. Allavega á meðan staðan er svona í Rússlandi,“ segir Þröstur.
Ekki um auðugan garð að gresja
Salan á veiðileyfum gengur ansi vel hjá flestum leigutökum og nú eru hópar erlendra veiðimanna sem fara venjulega til Rússlands að veiða farnir að bóka veiði á Íslandi.
„Já, já, það er eitthvað um það. Þetta er svona rétt að byrja. Við erum aðeins varir við það. Mér heyrist svona á aðilum þarna úti í Rússlandi að þeir hafa hangið í að halda hugsanlegum möguleika opnum en mér skilst að þetta sé nú allt að loka hvað úr hverju þarna uppi í Rússlandi,“ segir Þröstur.

Allt stefnir í það að laxveiðiárnar í Rússlandi loki í sumar fyrir ferðamenn frá hinum ýmsu þjóðum.
„Og þá er ekkert um auðugan garð að gresja. Ísland og Kólaskagi í Rússlandi hafa verið bestu laxveiðisvæðin. Noregur, Skotland og Kanada... veiðin hefur ekki verið mjög góð þar,“ segir Þröstur.
Og aðsóknin virðist ætla að verða meiri en nokkru sinni því til viðbótar við erlenda veiðimenn er auðvitað mikill fjöldi íslenskra veiðimanna.
Vinsældir laxveiði hafa nefnilega aukist mjög á Íslandi á allra síðustu árum.
„Það má segja að við Covidið hafi margir ekki farið út fyrir landsteina og leitað hérna að afþreyingu innanlands og sú afþreying hefur verið þar á meðal í stangveiðinni. Og við höfum fundið það,“ segir Þröstur.