Fjallað var um alls konar málbreytingar í Íslandi í dag, sem sjá má hér að ofan. Þar var einnig rætt við Eirík Rögnvaldsson málfræðing.
Umburðarlyndi hljómar vel, en hvað þýðir þetta nákvæmlega? Meðal annars það, að nú „má“ segja 'mér langar' í stað 'mig langar', 'það var beðið mig um að fara' í stað 'ég var beðinn um að fara' og það má opna 'hurðir' en ekki bara 'dyr'.
Auðvitað er þetta ekki óumdeilt, en Eiríkur hefur barist fyrir því að fólk hætti að amast við breytingum sem þegar eru orðnar. Og ofangreindar breytingar eru að sönnu orðnar, þágufallshneigð er mjög útbreidd málbreyting og einnig hin nýja þolmynd, alltént á meðal ungu kynslóðarinnar.

En á þá að leyfa allt, er stundum spurt.
„Það á ekkert að leyfa allt. En þegar um er að ræða tilbrigði í máli, sem hafa verið í málinu áratugum saman, jafnvel í heila öld, og fjöldi fólks hefur alist upp við frá máltökuskeiði og notar, þá finnst mér engin ástæða til að amast við því,“ segir Eiríkur.
Ég vill, mig langar, það var beðið mig um að fara; þurfum við að hætta að amast við þessu?
„Mér finnst það. Mér finnst engin ástæða til að vera að amast við þessu. Þetta fellur allt undir það sem ég var að lýsa. Þetta er ekki nýtt í málinu, þetta er útbreitt, en ég hins vegar skil vel að það sé erfitt fyrir fólk sem hefur alist upp við að eitthvað sé rangt að snúa allt í einu við blaðinu. En ég held að það sé mikilvægt og nauðsynlegt fyrir tungumálið að við notum tímann í annað en að amast við svona breytingum.“
Sjálfur kveðst Eiríkur í grunninn vera íhaldskurfur sem vilji helst að tungumálið sé eins og í Skagafirði á sjötta áratugnum. En það er ekki raunhæf ósk, segir Eiríkur, og eins gott að sætta sig við að svo verði ekki.