Boðað er að í stað hússins, sem áður var áhaldahús bæjarins, komi blokk sambærileg þeim sem sjá má í innslaginu að ofan. Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Þetta er bara alveg hræðilegt. Við erum eiginlega bara miður okkar að þetta hús eigi að hverfa, hvort sem það er fyrir blokk eða bílastæði,“ segir Dóra G. Wild, stjórnarmaður í Leikfélagi Mosfellssveitar.
„Við erum í raun og veru alltaf að sýna síðustu sýninguna, við vitum í raun og veru ekki hvað við verðum hérna lengi. Það er alltaf sagt: Þið verðið hérna þar til við erum búin að finna eitthvað nýtt,“ segir Dóra.
Það sem hefur verið lagt til að er að starfsemi leikfélagsins færist í menningarkjarna í næstu götu ásamt annarri starfsemi, Hlégarð. Það segir Dóra að henti leikfélaginu ekki - og hvetur frambjóðendur til að endurhugsa málið.
Á meðan endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir lifir leikfélagið í óvissu. En tapar ekki gleðinni, því nú um mundir er verið að sýna sýningu helgaða ævi Mosfellingsins og leikfélagskonunnar Maríu Guðmundsdóttur sem lést í fyrra. Það var vel að merkja móðir Dóru.

„Þetta er svona til heiðurs henni, þetta eru sketsar eftir hana, uppáhaldstónlistin hennar, tónlistin okkar, og þetta er gleði, sorg og alls konar,“ segir Dóra. Óumdeilt er að María hefði séð á eftir leikhúsinu, segir Dóra hýr í bragði: „Mamma elskaði þetta hús meira en hún elskaði mig... Það er bara þannig.“