Hvernig er að gefa aftur út tónlist?
Ótrúlega gaman og er með fiðrildi í maganum. Ég er búin að vera vinna að þessu lagi í langan tíma með Ásgeiri Orra Ásgeirssyni. Ég lifi fyrir tónlist og elska alla tónlist.
„Tónlist gerir líka allt svo miklu skemmtilegra.“
Um hvað er lagið?
Lagið er um ást, mikla ást. Í því eru tveir aðilar sem elska hvort annað svo mikið en fólkið í kringum þau vilja ekki að þau séu saman og er að reyna að slíta þau í sundur. Þau vilja frekar falla saman heldur en að hætta saman.
Er það eitthvað sem þú hefur upplifað?
Nei sem betur fer ekki. Ég þekki þessa ást, þessa miklu ást og hef verið lengi með mínum kærasta.
Hvað ertu búin að vera að gera í millitíðinni?
Það er búið að vera nóg um að vera. Ég gaf út heimildarmyndina Lesblinda með Sagafilm og barnabókina Oreo fer í skólann og kláraði viðskiptafræði í háskólanum. Ég er einnig búin að vera halda fyrirlestra í flest öllum skólum landsins um lesblindu og þrautseigju en stuðningur við lesblindu er mér hjartans mál.
Ég bjó til Oreo bangsa í tengslum við barnabókina með Hagkaup sem er einmitt komin í sölu núna en krakkar geta lesið fyrir bangsann. Síðan er ég að undirbúa skemmtilega herferð og verkefni fyrir ungu kynslóðina í september.
Einnig er ég að vinna að forriti sem heitir AskStudy sem er kennsluforrit. Það er bara þannig að við höfum verk að vinna til að gera menntakerfið okkar sem best svo allir fái tækifæri til að blómstra.
Með AskStudy höfum við samfélagið tækifæri til að aðstoða og leggja okkar á vogarskálarnar til þess að bæta menntakerfi og siðferði. Allir hafa sínar skoðanir á menntakerfinu okkar en hvað erum við tilbúin að leggja af mörkum. Hér erum við að skapa verkfæri sem allir geta nýtt sér og sýnt viljann í verki.
„Síðan er fullt af nýrri tónlist á leiðinni þar sem ég hef verið að semja mikið í millitíðinni, bara áfram gakk!“
Hvað er framundan í tónlistinni?
Gefa út meira efni og koma fram.
„Ég elska ekkert meira en syngja og dansa uppá sviði.“
Hvernig finnst þér best að semja tónlist?
Þetta er alltaf sama rútínan hjá mér. Sagan kemur fyrst og síðan lagið eða textinn. Textar skipta mig mjög miklu máli sem og söguþráðurinn í laginu.
Hvaðan færð þú innblástur?
Ég fæ innblástur frá fólkinu í kringum mig, fólkinu sem ég hitti, sé og kynnist. Held að besta svarið sé með því að lifa lífinu og öllu því sem það hefur upp á að bjóða.