Í tilkynningu EBU segir að 161 milljón manna hafi horft á keppnina. Það er umtalsvert lægra en á síðasta ári, en skýringin er meðal annars sögð vera sú að áhorf var hvorki mælt í Úkraínu né Rússlandi. Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar á þessu ári, en EBU tók ákvörðun um að meina Rússum þátttöku í keppninni.
Á síðasta ári horfðu 29 milljónir manna á keppnina í þessum tveimur löndum, þegar 183 milljónir horfði á keppnina á heimsvísu. Ef þessi tvö lönd eru talin frá tölum síðasta árs verða tölurnar að einhverju leyti samanburðarhæfar, að sögn EBU, og sést þá að sjö milljónum fleiri horfðu á keppnina í ár.
Norðurlöndin óð í Eurovision
Þó Íslendingar leiði áhorf á Eurovision á heimsvísu voru alls 13 „markaðir“, eins og EBU kallar það, þar sem áhorf fór yfir 50 prósent. Á eftir Íslendingum koma Noregur með 89,1 prósent, Svíþjóð með 81,4 prósent og Finnland með 72,1 prósent. Því er ljóst að Eurovision-áhuginn er hvað mestur meðal Norðurlandaþjóða.
Aðrir markaðir þar sem áhorfið fór yfir 50 prósent voru Armenía, Flæmingjaland, Danmörk, Eistland, Grikkland, Lettland, Holland, Spánn og Bretland.
Þá hreykja forsvarsmenn keppninnar sér af miklum árangri á samfélagsmiðlum. Fyrir keppnina í ár, sem haldin var í Tórínó á Ítalíu, gerðu EBU og samfélagsmiðilsins TikTok með sér samstarfssamning.
Opinber reikningur keppninnar fékk 189 milljónir áhorfa á myndbönd sín á miðlinum og öllum þremur keppniskvöldum Eurovision, undanúrslitunum tveimur og úrslitakvöldinu, var streymt á miðlinum. Þar horfðu 3,3 milljónir á úrslitakvöldið, en í heildina horfðu 5,1 milljón TikTok-notenda á keppniskvöldin þrjú.
Hér má lesa nánar um hinar ýmsu áhorfstölur tengdar keppninni.