Konurnar eru nú þegar komnar með útiklefa, sem þær nota til að gera sig klára áður en þær fara í sjóinn. Þar er fullt af skemmtilegum myndum af þeim . Næsta verkefni er að byggja saunabað á svæðinu en búið er að grafa fyrir klefanum. Konurnar eru á öllum aldri, sem stunda sjósundið, allar hressar og kátar. Félagsskapur þeirra heitir Flæði, Sjósundsfélag Stykkishólms.
„Þetta er bara hraustasta fólkið í Stykkishólmi komið saman og það skemmtilegasta. Við erum ótrúlega duglegar, þetta venst, maður vinnur sig upp í þoli. Svo líður okkur svo vel og það er svo gaman að hittast hér,“ segir Ásdís Árnadóttir, sjósundsgarpur og forsvarskona hópsins.
En hvar er karlpeningurinn í Stykkishólmi, af hverju er hann ekki líka í sjósundi?
„Hann er að bíða eftir karlaklefanum, þetta er bara konuklefinn, hann hlýtur að mæta þegar karlaklefinn kemur,“ segir Ásdís skellihlæjandi.

Krökkunum þykir ekki síður gaman að fara í sjósund eins og konunum.
„Það er svo skemmtilegt að synda í köldum sjónum og helst að synda langt ef við megum það,“ segja systkinin Sesselja og Guðmundur Elís Arnþórsbörn. Hún er 11 ára og hann 10 ára.
