Tilkynning um eldinn, sem kviknaði í húsnæði Tunglskins og OSS í Skútuvogi, barst rétt upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi. Töluverðan reyk lagði frá húsinu þegar slökkvilið bar að garði. Tunglskin og OSS eru með verkstæði og lager í húsinu en síðarnefnda fyrirtækið sérhæfir sig í leigu, viðgerðum og viðhaldi á rafhlaupahjólum.

Jón Viðar Matthíasson, slökkvliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir slökkvistarf hafa gengið vel að mestu, en senda þurfti nokkra reykkafara inn í bygginguna. Húsið sé nokkuð umfangsmikið, en slökkviliði hafi tekist að einangra eldinn við það rými þar sem hann kom upp.
„Lögreglan tók við vettvangi í gærkvöldi, um miðnætti. Og við höfum ekki heyrt neitt frá lögreglu varðandi rannsóknina, það er ekki komið ennþá,“ segir Jón Viðar í samtali við fréttastofu.
Hvetur eigendur rafhjóla og hlaupahjóla til að sýna varkárni
Jón Viðar segir að samkvæmt upplýsingum slökkviliðs hafi ekki verið hleðsla á þeim hlaupahjólum sem í húsinu voru. Hann hvetur þó eigendur rafhlaupahjóla til að huga að eldvörnum, þar sem rafhlöður á tækjunum geti skapað aukna eldhættu.
„Rafhlöður almennt hitna við bruna og eftir því sem þær eru stærri því oftar eru einhverjar líkur á að þær geti verið víðsjárverðari.“
Jón Viðar segir reglugerðir ekki gera sérstaka kröfu um aðbúnað þegar kemur að rafhjólum og hlaupahjólum. Hann telur alltaf tilefni til að rýna í útköll slökkviliðs og læra af þeim.
„En við vitum ekki alveg akkúrat ástæður fyrir þessu útkalli, þannig að maður bíður með spekúlasjónir þangað til við fáum niðurstöður úr rannsókn,“ segir Jón Viðar.