Uggvænleg þróun hefur átt sér stað á jöklum landsins síðustu áratugi en tæp þrjú ár eru síðan haldin var minningarathöfn um jökulinn Ok sem hvarf. Guðfinna vildi ekki spá fyrir um hvaða jökull yrði næstur til að hverfa en telur ljóst að ekki séu nema nokkrir áratugir þar til flestir þeirra helstu verði horfnir.
Jöklarnir eins og bankareikningur
Guðfinna segir Helga Björnsson, jöklafræðing, hafa komið með ágætis líkingu um samspil veturhörku og sumarblíðu á bráðnun jöklanna.
„Jöklarnir eru eins og bankareikningur, þú leggur inn á veturna og tekur út á sumrin og ef þú tekur meira út á sumrin þá minnka þeir. Við höfum mælt snjókomu á helstu jöklana í vetur og það snjóaði meira í vetur en vanalega, þannig nú bíðum við spennt að fylgjast með þróuninni í sumar.“ sagði Guðfinna en hlusta má á viðtalið við Guðfinnu í Bítínu í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
Guðfinna segir að við upphaf mælinga á öndverðum tíunda áratug afkoma jökla verið jákvæð, þannig að meiri snjór bættist við þá á veturna en bráðnaði á sumrin. Þessu hafi hins vegar öfugt farið frá árinu 1994 og jöklarnir bráðnað stöðugt síðan þá.
Hitastig hafsins hefur mikil áhrif á þróun jöklanna.
Í viðtalinu lýsti Guðfinna einkennilegum köldum polli í hafinu suðvestan við Ísland, sem hafi hægt á bráðnun jöklanna frá árinu 2010. Hún tekur að auki fram að takist að hægja á hlýnun jarðar munu jöklarnir vera fljótir að bregðast við því. Vísindamenn hafi tekið eftir því hve mikil áhrif hitastig hafsins í kringum Ísland hafi á bráðnun jöklanna.
Að lokum áréttaði Guðfinna að útblástur koltvísýrings af mannavöldum leiði til aukinnar hlýnunar, og þar með bráðnunar jökla, en hitastig á jörðinni vegna þessa hefur nú þegar aukist um rúma eina gráðu.