Mikil þoka hefur legið yfir höfuðborgarsvæðinu síðan í gær vegna þess hversu hlýtt loft hefur verið yfir landinu undanfarið. Þokan olli því að flugvél Mýflugs gat ekki flutt veikan einstakling frá Vestmannaeyjum í nótt.
„Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum á þessu ári að Landhelgisgæslan hefur sinnt sjúkraflugi frá Eyjum þegar aðstæður í Vestmannaeyjum hafa verið með þeim hætti að flugvél hefur ekki getað ekki lent þar. Þá eiga þyrlurnar auðveldara um vik að lenda annars staðar á eyjunni en þetta var akkúrat öfugt í nótt. Þá var það þannig að sjúkraflugvél Mýflugs gat ekki lent á Reykjavíkurflugvelli vegna þoku. Aftur á móti heiðskýrt og sérlega gott veður í Vestmannaeyjum,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við Vísi.
Hann segir að útkallið hafa gengið vel og að sjúklingnum hafi verið komið hratt og örugglega á Landspítala.
Þá segir hann að það sem af er ári hafi Landhelgisgæslan farið óvenjumörg sjúkraflug til Vestmannaeyja vegna slæmra veðurskilyrða í Eyjum. Til að mynda hafi þyrluflugmaður lent þyrlunni á bílastæði á Hamrinum fyrir aðeins um hálfum mánuði.
Þá sótti þyrlan slasaðan franskan ferðamann til Eyja um helgina en sá hafði runnið í skriðum við Stafsnes og fallið tugi metra.