Selfyssingurinn Guðný Traustadóttir er ein af konunum, sem er í forsvari fyrir veifuverkefnið í Tívolíinu en hún er með garnverslun á Amager með vinkonu sinni. Hópur íslenskra kvenna hefur hist í Jónshúsi undir forystu Höllu Benediktsdóttur síðustu mánuði og setið saman og prjónað íslensku veifurnar í fánalitunum.
Stefnan er að prjóna einn kílómetra af veifum, sem verða út um allt í tívolíinu á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní.
„Við erum í hópi nokkrar íslenskar konur þar sem við erum að prjóna svona veifur með íslensku fánalitunum úr íslenskri ull og garðurinn verður skreyttur frá inngangi og niður á Orangeri þar sem við verðum með aðstöðu. Þetta verður lengsta veifulengja í Tívolí nokkru sinni. Þetta verður rosalega gaman og það verða allskonar íslenskir viðburðir,“ segir Guðný og bætir við.

„Þetta er alveg dásamlegt og gaman að vera þátttakandi í þessu. Tívolí er náttúrulega elsti skemmtistaður í Evrópu og hvergi fallegra að vera, þannig að þetta er mikill heiður, þeir ætla að hylla íslenska menningu og tónlist.“

Guðný segir frábært að verða vitni af samtakamætti íslenskra kvenna á öllum Norðurlöndunum í veifuverkefninu. Konurnar hafi allir verið til og komið saman víða til að prjóna og eiga góða stund saman. Stefnan er að prjóna tvö þúsund veifur.

Þurfa þá Íslendingar að fjölmenna í Tívolí á þjóðhátíðardaginn?
„Algjörlega, þetta verður svo gaman. Það er spáð góðu veðri, Danir geta spáð langt fram í tímann og það stenst, það verður sól og hlýtt.“
Og þú ert alsæl í Danmörku með prjónana þína?
„Já, já, alsæl, ég er nú hérna í fjarbúð á Íslandi, þannig að við fljúgumst á, ég og kærastinn minn,“ segir Guðný og hlær.
