Þá hvetur Haukur seljendur til að selja eign sínar sjálfir og ráða fasteignasala sér til aðstoðar við afmarkaða þætti sölunnar líkt og verðlagningu eða skjalagerð á föstu gjaldi.
Fengu minna fyrir eignirnar
Haukur vísar til rannsóknar Stanford háskóla í Bandaríkjunum þar sem seljendur sem nýttu sér fasteignasala hafi að meðaltali fengið 5,9% til 7,7% lægra verð fyrir eignir sínar en þeir sem seldu þær sjálfir.
Hann telur að svipaðar aðstæður séu uppi hér á landi. Hér sé auðvelt að auglýsa eignir á fasteignavefjum, samfélagsmiðlum og í dagblöðum. Því eigi niðurstöður Stanford rannsóknarinnar erindi við íslenskan almenning.
„Hver kannast ekki við að hafa heyrt af margmenni á opnum húsum og fjölda tilboða í hverja eign um leið og þær eru komnar á sölu? Jafnvel tilboð um staðgreiðslu á yfirverði? Allt eru þetta merki um lélega verðlagningu á eigninni, líklega af hálfu fasteignasala.“
Milljónir á milljónir ofan tapist
„Ég hef ekkert að gera við fullt hús af fólki sem telur sig komið á útsölu. Það er hins vegar rosalega fínt fyrir fasteignasalann, auðveld sala með himinhárri söluþóknun, þó það kosti viðskiptavininn milljónir á milljónir ofan,“ skrifar Haukur jafnframt.
Hann segir nóg komið af því að greiða milljónir í söluþóknanir og tapa enn fleiri milljónum vegna lélegs verðmats.
„Væri þá ekki nær að spara sér peninginn eða kaupa næstu eign fullbúna með gólfefnum, innréttingum og öllum nútíma lúxus í stað þess að láta peninginn hverfa í vasa fasteignasala og eitthvert annað?“ skrifar Haukur að lokum í grein sinni.