Framsóknarflokkurinn er enn á mikilli siglingu. Í nýrri könnun Maskínu sem gerð var dagana 1. til 23. júní mælist flokkurinn með 18,3 prósenta fylgi. Bætir við sig þremur prósentustigum frá síðustu könnun í maí.

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður flokksins segir framsóknarstefnuna sígilda. Þessi elsti stjórnmálaflokkur landsins hafi náð að endurnýja sig á hverjum tíma.
„Miðjuflokkar hafa stundum átt erfitt uppdráttar. En í vaxandi pólariseringu heimsins og öfgahyggju held ég að vaxandi hópur Íslendinga og reyndar miklu fleiri aðhyllist hófsama skynsemisstefnu sem við erum með Framsókn,“ segir Sigurður Ingi.
Það munar einungis einu prósentustigi á fylgi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem nú mælist með 19,3 prósent atkvæða. Það er litlu meira en í síðustu könnun en flokkurinn hlaut 24,4 prósent í alþingiskosningunum fyrir níu mánuðum.

Nú er varla marktækur munur á milli þessara tveggja stjórnarflokka en Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir flokkinn enn stærstan.
„Þetta er bara könnun sem er í línu við það sem við höfum verið að sjá í öðrum könnunum. Á síðasta hálfa ári hefur verið gengið tvisvar til kosninga. Við höfum legið í kringum 25 prósent í kosningum rétt rúmlega hálfa árið. Það er bara eins og alltaf verk að vinna og ég í sjálfu sér kippi mér ekki upp við einstakar kannanir.“
Framsóknarflokkurinn er að sækja vel í sig veðrið frá síðustu könnun?
„Já, sem er líka í ákveðnum takti við að stjórnarandstaðan er líka tvístruð og ósamstíga. Ég er bara ánægður með ef stjórnarflokkar halda sínu fylgi. Það skiptir máli fyrir ríkisstjórnina,“ segir Bjarni Benediktsson.