Í samstarfssáttmála nýs meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar segir í fyrstu aðgerðum að ókeypis verði í sund fyrir börn á grunnskólaaldri og að aðgengi borgarbúa á öllum aldri að sundlaugum borgarinnar sé brýnt lýðheilsumál.
Nú verður þessu hrint í framkvæmd og verður sömuleiðis boðið upp á endurgreiðslu á kortum sem foreldrar og forráðamenn hafa keypt, jafnt 10 miða kortum og 6 eða 12 mánaða kortum fyrir börn. Kostnaðarauki vegna þessa á árinu er áætlaður 12 milljónir króna auk allt að 7,4 milljóna í endurgreiðslur. Kostnaðarauki fyrir árið 2023 er áætlaður 30 milljónir króna.
Tilraunir um miðnæturopnanir í Laugardalslaug
Miðnæturopnun á fimmtudagskvöldum í Laugardalslaug verður tilraunaverkefni til áramóta og lagt verður mat á reynsluna við undirbúning fjárhagsáætlunar 2023.
Verkefnið er hluti af fyrstu aðgerðum meirihlutans samkvæmt meirihlutasáttmála og er gert ráð fyrir að kostnaðarauki vegna þessa til áramóta verði 2,5 milljónir króna, um 6 milljónir á ársgrundvelli.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að vonast sé til að miðnæturopnunin „geri góða sundlaugamenningu borgarinnar enn litskrúðugri og skemmtilegri.„“