Fedotov er sakaður um að reyna að komast undan herskyldu og var hann handtekinn af lögreglunni í Sankti Pétursborg að beiðni saksóknara rússneska hersins síðastliðinn föstudag. Við handtökuna var Fedotov færður á innritunarstöð rússneska hersins. Var hann síðar færður á herspítala en hann veiktist skyndilega í hasarnum.
Lögmaður Fedotov sagði við fjölmiðla að hann hefði verið fluttur á sjúkrahús vegna magaverkja (e. gastritis) enda mikið áfall og streituvaldandi að vera handtekinn. Engin viðbrögð hafa verið við upplýsingabeiðnum Reuters fréttastofunnar hvorki frá yfirvöldum né leikmanninum sjálfum.
Fedotov var á mála hjá CSKA Moskvu í KHL deildinni og leiddi liðið til sigurs í deildinni á síðasta tímabili. Talsmenn liðsins sögðu að leikmaðurinn væri ekki lengur samningsbundinn liðinu en beðið væri eftir upplýsingum frá yfirvöldum varðandi stöðu Fedotov.
Handtakan hefur verið beintengd við innrás Rússa í Úkraínu og hefur ástandið á svæðinu orðið til þess að NHL deildin bandaríska hefur skorið á öll tengsl við Rússa. Fjölmargir rússneskir hafa leikið í NHL deildinni undanfarin ár og hefur verið tekin sú ákvörðun að ekki verði farið með Stanley bikarinn til Rússlands í kjölfarið að Colorado Avalanceh vann bikarinn í síðasta mánuði. Venja er að sýna bikarinn í heimabæjum leikmanna liðsins sem vinnur en á mála Avalanche er Rússinn Valery Nichushkin.