Forsvarsmenn Twitter hafa lengi sagt að fjöldi þessara reikninga samsvari um fimm prósentum af um 230 milljónum daglegum notendum samfélagsmiðilsins. Musk hefur dregið það í efa og sakað Twitter um að veita sér ekki nægjanlega góðar upplýsingar.
Auðjöfurinn lýsti því yfir í maí að kaupin væru í bið, vegna skorts á upplýsingum um botta og falska reikninga. Flestir slíkir reikningar ganga út á að kynna rafmyntir eða klám og forstjóri Twitter sagði fyrr á árinu að um fimm hundruð þúsund slíkum væri eytt á degi hverjum.
Sjá einnig: Musk segir Twitter-kaupin í bið
Musk og hans fólk segir ekki hægt að meta raunverulegt verðmæti Twitter án þessara upplýsinga. Í frétt Washington Post er gefið í skyn að Musk gæti reynt að hætta við kaupin. Einn heimildarmaður WP úr búðum Musks segir forsvarsmenn Twitter ekki hafa verið samstarfsfúsa.
Musk hefur þó þegar skrifað undir kaupsamning um að kaupa fyrirtækið á 44 milljarða dala. Í samningunum er ákvæði um að hann geti ekki hætt við nema eitthvað mikið komi upp og samkvæmt sérfræðingum sem WP ræddi við þykir ólíklegt að skortur á upplýsingum um botta dugi þar til.
Forsvarsmenn Twitter hafa sagt að þeir vilji að gengið verði frá kaupunum, þrátt fyrir að þeir hafi barist gegn Musk til að byrja með. Jafnvel þó Musk takist að sannfæra dómara um fella kaupsamninginn niður gæti hann þurft að greiða Twitter einn milljarð dala.
Allt frá því hann gerði upprunalegt kauptilboð sitt í Twitter hafa verið uppi efasemdir um að Musk hafi raunverulega ætlað sér að kaupa samfélagsmiðilinn. Stærstur hluti auðæfa hans er bundinn í hlutabréfum og hafa lækkanir á mörkuðum komið niður á sjóðum hans. Þá hefur virði Twitter einnig lækkað og hefur það að hluta til verið rakið til ummæla Musks.