Stöðin verður staðsett í Straumsvík og verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Áætlað er að starfsemi hennar geti hafist árið 2026. Þá verði hægt að farga hálfri milljón tonna af koltvísýringi á ári. Hámarksafköstum verði náð árið 2031. Þá verði mögulegt að farga þremur milljónum tonna á ári. Það jafngildir um 65 prósent af heildarlosun Íslands árið 2019.
Í höfninni við Straumsvík verður koltvísýringnum dælt á tanka, þaðan í lagnir út í basalthraunið skammt frá, þar sem honum verður dælt niður í sérútbúnar holur. Þar á koltvísýringurinn að steingerast á um tveimur árum.
Fyrirtækið horfir til þess að farga kolefni frá löndunum næst Íslandi. Það er að segja, Skandinavíu, Bretland og fleiri lönd í norðurhluta Evrópu.
„Við erum í samtali við aðila sem eru að undirbúa föngun á koldíoxíði í sinni starfsemi. Það eru ólíkir aðilar sem koma til greina, en það er hluti af vinnunni sem er í gangi að loka samningum,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.
Mikill áhugi fjárfesta
Styrkurinn frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandins, sem er fjármagnaður með sölu á losunarheimildum, mun fjármagna um þriðjung verkefnisins.
„Hugmyndin er að fjárfestar taki þátt í að fjármagna rest, alþjóðlegir og innlendir. Við erum bara í ferli með það og höfum stofnað sérstakt verkefnafélag utan um starfsemina, og það verður þá fjármagnað með þessum hætti,“ segir Edda.
Þannig að það verður ekkert vandamál að fá fjármagn í verkefnið?
„Áhuginn er gríðarlega mikill. En við þurfum auðvitað að landa samningum og koma ákveðnum þáttum verkefnisins eilítið lengra, áður en við ljúkum því skrefi.“
Edda telur að verkefnið feli í sér mikil tækifæri fyrir Ísland, sem hafi verið leiðandi í að fanga og farga koltvísýringi.
„Þetta festir okkur auðvitað bara enn betur í þeim sessi og sýnir auðvitað líka bara hvaða tækifæri felast í því að markvisst byggja upp hugvit og hugverkaiðnað hér á landi. Þannig að við sjáum bara fram á mikil tækifæri fyrir íslenskt efnahagslíf.“

Í sjónvarpsfréttinni sem má sjá hér að ofan var sagt að stöðin ætti að ná hámarksafköstum árið 2032. Hið rétta er að það á að gerast ári fyrr, árið 2031.